154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

Störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Fiskeldisfrumvarpið sem ríkisstjórnarflokkarnir þrír skiluðu til þingsins með nýjum reglum sínum um auðlindir, auðlindir í fjörðum þjóðarinnar í þetta sinn, er spegill á hagsmuni. Fiskeldisfyrirtækin fengu þar auðlindir afhentar til frambúðar. Öll leyfi til að standa í rekstri voru orðin ótímabundin. Leyfin runnu aldrei út og voru þar til eilífðarnóns. Eftir sterk mótmæli hér á Alþingi og í samfélaginu öllu er á Vinstri grænum að skilja að þau geti hugsað sér að breyta þessu frumvarpi þannig að þjóðin sé ekki látin afsala sér auðlindum til frambúðar. Það sama virðist vera reyndin með Framsóknarflokkinn en hjá Sjálfstæðisflokknum er þögnin ærandi. Spurningin er hvort afstaða Sjálfstæðisflokksins verði önnur hér en í sjávarútvegi. Átakalínur eru hvergi skýrari en þegar kemur að auðlindunum og þess vegna er svo áríðandi fyrir fólkið í landinu að auðlindir verði varðar í stjórnarskrá, að almenningur verði varinn fyrir svona vinnubrögðum, verði varinn fyrir svona pólitík í stjórnarskrá, að svona slysasleppingar sérhagsmuna geti aldrei orðið eins og núna þegar öll mörk eru farin hjá sjö ára ríkisstjórn í öngstræti. Stjórnarskráin verður að segja berum orðum að afnot af auðlindum í eigu þjóðarinnar verði alltaf tímabundin. Fyrrverandi forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, kynnti frumvarp um auðlindaákvæði í stjórnarskrá hér á þingi sem var eins og úr sú smiðju Sjálfstæðisflokks, enda samruni VG og Sjálfstæðisflokks orðinn alger þá. Þar var ákvæði sem var þögult um þá hagsmuni sem mestu máli skiptu, ekki orð um tímabindingu í ákvæðinu sjálfu, þögult um allt sem mestu máli skiptir og áfram opin leið til að færa þær auðlindir fyrirtækjum til eilífðarnóns. (Forseti hringir.) Það þarf alvöruöryggisventil í stjórnarskrá. Það stóra verkefni bíður næstu ríkisstjórnar.